Fyrsta námskeiðið er að verða að veruleika næsta laugardag. Þá kemur Marianne Guckelsberger og kennir okkur að spinna. Marianne er þaulvön spunakona sem spinnur bæði af og á rokk, halasnældur, tyrkneskar, færeyskar snældur, íslenska og erlenda rokka. Hún hefur spunnið, litað of ofið sín eigin víkinga og miðalda klæði. Hún hefur kennt tóvinnu, kríl og vattarsaum í Heimilisiðnaðarskólanum í 30 ár og er gestakennari á Eiríksstöðum, Hallormsstaðaskóla, Gásum og víða.

Það eru forréttindi að fá svona færa konu til að kenna okkur hluta af handverki menningararfs okkar. Það er einmitt hluti af verkefnum Ullarversins að varðveita menningararf okkar Íslendinga og koma honum áfram til komandi kynslóða.
Við erum líka búnar að bjóða uppá fyrstu örvinnustofuna sem er vinnustofa í að þæfa litla lyklakippu. Það voru 6 hressar sænskar konur sem hafa búið lengi á Íslandi sem voru fyrstar til að taka þátt í slíkri vinnustofu. Það var gaman og tókst mjög vel.
Nánar um námskeiðin og vinnustofurnar má finna á bókunnarsíðunni okkar.
Vöruúrvalið i verslun er líka alltaf að aukast og nýtt garn frá Bretlandi er að lenda í versluninni í dag. Við erum líka farnar að lita léttlopa með okkar eigin aðferðum og kemur það vel út. Skemmtilegir litir og úrval sem hún Magga nær að lita. Nú eigum við líka litað snoð til að þæfa úr og er það frábært hráefni í ýmis listaverk.
Fréttir af ullarvinnslunni eru litlar núna nema hvað vonandi koma vélarnar með vorskipinu.