Áfram heldur uppbygging Ullarversins áfram. Við erum að ná að saxa smátt og smátt á verkefnalistann okkar sem þó breytist sífellt. Verslunin opnaði í lok nóvember 2024 og rými fyrir vinnustofur og námskeið er nú á lokasprettinum og við erum spenntar að taka á móti hópum í vinnustofuna. Núna í framhaldinu munum verða auglýst prjónakvöld og aðrir viðburðir, svona þegar veðrið fer að láta betur við okkur. Fresta þurfti spunanámskeiðinu sem vera átti 1. febrúar vegna veður og verður það haldið síðar.

Á vordögum vonumst við til að fá fyrstu vélarnar í hús fyrir ullarvinnsluna og þá getum við farið að gera tilraunir með vinnslu á okkar eigin ull og ull fyrir aðra. Draumurinn er að verða að veruleika og við trúum því varla sjálfar.

Við vorum svo heppnar að semja við West Yorkshire Spinners um að flytja inn garn frá þeim. Það hefur verið gert áður en enginn sem flytur inn garnið þeirra annar en við á þessari stundu. Hægt er að fá þrjár tegundir af garni frá þeim á þessari stundu og hver veit nema að úrvalið muni aukast.

Garnið frá WYS er mjög vandað og kemur í fallegum litum. Hægt er að fá silkimjúkt 100% ullargarn eða ullarblöndu. Nýleg vara hjá þeim er Elements garnið sem er 40% ull og 60% TencelTM eða 100% náttúrulegt efni.

Tencel er framleitt úr trjám og er framleiðsla þess algerlega sjálfbær. Efni framleidd úr TencelTM Lyocell og Modal trefjum er mjög mjúkt að eðlisfari og endingargott. Elements garnið er silkimjúkt og það verður spennandi að heyra frá viðskiptavinum um hvernig það reynist.

Það sem af er febrúar verður aðeins breyttur opnunartími en vikurnar 10. til 28. febrúar verður lokað á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum.

Fleiri pistlar